Hvað orsakar myglu?

Posted by Róbert Jóhannesson on

Myglugró er í öllu andrúmslofti en þurfa kjöraðstæður til að spíra og fjölga sér, þær aðstæður eru: Raki, hiti, fæði og kyrrt loft.

Það eru í kringum 2000 tegundir af mygluflokkum sem eru þekktir, af þeim eru 18 taldir hættulegir heilsu fólks. Flestar þessar tegundir eru í náttúrunni og eiga að vera þar og gera sitt gagn við niðurbrot og efnabreytingar. Við áðurnefndar kjöraðstæður innan húss, geta þessar myglutegundir tekið sér bólfestu þar og orðið hættulegar heilsu íbúanna.

 

Ég er með mygluvandamál, hvað er ég að gera rangt?

Þessi spurning hefur mörg svör. Einfaldasta svarið er; þú opnar glugga of sjaldan og í of stuttan tíma. Annað einfalt svar er; það er engin loftræsting á baði eða í þvottahúsi. Svo verða svörin erfiðari og kostnaðarsamari.

Röng umgengni um húsnæði getur haft í för með sér að húsnæðið sýkist og þar með íbúarnir líka. Ofnotkun á vatni við skúringar á parketi getur valdið því að raki myndast undir því, sem kemur oftast frá mætum við vegg. Raki undir parketi er örugg vísbending um myndun myglu. Skúffa í þvottahúsinnréttingu sem höfð er lokuð og inniheldur mismunandi rök klæði, kallar beinlínis á mygluvandamál. Sápuhólf á þvottavélum sem aldrei eru opnuð nema þegar sápu er helt í það, er myglutímasprengja. Gott ráð er að opna hólfið um leið og þvottur er tekinn úr vélinni, eins að hafa þvottahólfið aldrei lokað á milli notkunar á vél. Varast skal að hafa hluti þétt upp að útvegg í langan tíma, því þar myndast raki ef loft getur ekki leikið um.

 

Ég er með mygluvandamál. Hvað er nauðsynlegt að gera?

Fyrir það fyrsta, kalla til fólk sem hefur þekkingu á þessu sviði. Þegar mygla hefur hreiðrað um sig í hýbýlum fólks þá er öruggur fylgifiskur hennar að íbúar húsnæðisins veikjast.

Utan að komandi raki er í mörgum tilfellum orsök fyrir myglu- og sveppagróðri í húsum, eins er grátlega algengt að loftun/öndun í þökum er ábótavant. Kuldabrýr eru í mörgum tilfellum orsökin og þær má rekja til ónógrar einangrunar og/eða ófullnægjandi rakavarnarlags. Vatns- og skolplagnir eru líka þekktir orsakavaldar. Í nokkrum tilfellum er um ófullnægjandi dren frá húsum um að kenna. Best er að um leið og grunur leikur á að mygla sé komin í húsnæðið, að kalla til aðila sem geta greint vandamálið og fá verklýsingu og jafnvel verklega hjálp með úrræði.

 

Hvað má ég ganga langt við að fjarlægja myglu?

Í Skandinavíu er talað um að rífa að minnsta kosti einn meter út frá sýnilegri myglu og henda öllu efni innan þeirra marka. Sé mygla inn í veggjum þá verður að rífa annað byrðið af til að hægt sé að komast að myglunni.


Sale

Unavailable

Sold Out